fimmtudagur, september 05, 2002

Ég má nú alveg til með að þakka öllum þeim sem hafa skrifað í gestabókina mína fyrir mig. Gaman að fá svona kveðjur frá ykkur, vona að þið kíkið af og til og sjáið hvað hefur bæst við á síðuna hjá mér. Ég ætla að reyna að muna eftir því að skrifa hér þegar ég uppfæri síðuna þannig að þá getið þið skoðað það sem nýtt er. Þið sem hafið komið á síðuna og ekki skrifað í gestabókina mína, endilega safnið kjarki og skrifið þannig að ég viti að þið hafið kíkt í heimsókn. Kannast nefnilega við það sjálf að halda að það sé stórhættulegt að skrifa í svona gestabækur. Það er alveg nóg að segja hæ og bæ.

Þó maður eignist börnin sín með því að ættleiða þau þá er nokkuð ljóst að maður losnar ekki alveg við "meðgöngukvillana". Ég fékk að kynnast einum slíkum núna í vikunni. Hjónin sem áttu umsóknina sem fór ekki út á réttum tíma til Kína fóru að spyrjast fyrir um umsóknina sína hjá ÍÆ á mánudaginn, þau fengu að vita að hún eigi að fara út í næstu viku. Þar sem við erum búin að búast við að umsóknir okkar færu saman út þá spurði hún hvort okkar færi ekki líka þá. Og viti menn, nei hún á ekki að fara með þeirra var henni sagt og ekkert meir fékk hún að vita. Hún lét mig vita af þessu á mánudagskvöldið og vorum við ekki alveg að skilja hvernig stæði á þessu því umsóknin okkar á að vera tilbúin þá. Þar sem búið var að loka skrifstofunni þá gátum við ekkert gert til að athuga hvernig stæði á þessu. Ég var því hér eins og naut í nývirki, alveg brjáluð, blótaði öllu í sand og ösku. Okkur hafi verið sagt að hún færi núna á næstu vikum og vissum ekki til að það væru fleiri sendingar á leiðinni út nema þessi eina sem hin umsókn þessara hjóna var í. Þetta varð til þess að ég svaf ekkert alla nóttina af áhyggjum um að umsóknin okkar færi ekki út fyrr en í nóvember en þá vissi ég að næsta sending ætti að fara. Ég rétt náði dúr um kl. 6 en fór á fætur um 9 til að reyna að fá upplýsingar um hverju þessu sætti. Friðjón þessi elska var frekar rólegur yfir þessu og sagði að þetta hlyti að vera einhver misskilningur en ég gat nú ekki séð það. Við náum því miður ekki í starfsmann ÍÆ fyrir hádegi og óvissan því ennþá til staðar þegar ég skreið til vinnu á hádegi. Friðjón fór síðan eftir hádegi til að athuga þetta og kom þá í ljós að okkar ætti að fara ásamt 4 öðrum umsóknum um viku á eftir hinum. Ufffff, því líkur léttir, ég hefi kannski átt að trúa Friðjóni strax. Umsóknin okkar er sem sagt alveg að fara út og ég ætti að geta sofið næstu nætur, en best líður mér þegar ég veit að hún er lögð á stað út. En þá fæ ég örugglega einhverjar aðrar áhyggjur, alltaf hægt að finna eitthvað til að stressa sig útaf.

mánudagur, september 02, 2002

Jæja, það er víst ekki tekið út með sældinni að gera heimasíðu. Ég var að reyna að uppfæra hana í gærkveldi og þá fór bara allt í vitleysu. Þar sem ég gat ekki lagað það þá slökkti í ég tövlunni sem hýsir hana til að þið væruð ekki að skoða hana með öllum sínum böggum. En núna á hún að vera komin í lag. Þið takið kannski eftir að það vantar ennþá ýmsar síður en þær koma vonandi þegar líða fer á veturinn. Endilega skrifið mér línu ef þið sjáið eitthvað alvarlegt bögg svo ég geti lagað það.

sunnudagur, september 01, 2002

Föstudagskvöldið hittum við nokkurn hóp fólks sem er að ættleiða eða hefur ættleitt. Það er alltaf lærdómsríkt og gaman að hitta annað fólk sem í sömu sporum og urðum við hjónin margs vísari. Þetta fólk hefur eða er að ættleiða frá Rúmeníu, Indlandi, Kína og Kólembíu og hafa allir frá einhverju að segja úr reynsluheimi sínum. Það er alvega nauðsynlegt fyrir alla að hittast og ræða málin á opinskáan hátt og miðla vitneskju og reynslu sinni manna á milli. Vonandi tekst okkur að koma á opnum fundum hjá ÍÆ þar sem allir sem eru að ættleiða, hafa ættleitt eða eru að hugsa um að ættleiða geta hist og rætt saman.

Jæja þá er að byrja á þessari dagbók. Hér ætla ég að skrifa helstu atburði sem gerast í ættleiðingarferlinu hjá okkur hjónum á meðan við bíðum eftir að fá langþráða símtalið þar sem okkur verður tilkynnt að okkar bíður stúlka í Kína sem við megum fara að ná í. Við búumst við að fá þetta símtal eftir 12-14 mánuði frá því umsóknin okkar fer út.

Við skiluðum umsókninni okkar inn á fimmtudagsmorgunin þar sem allir pappírar voru stilmplaðir af sýslumanni. Starfsmaður ÍÆ sér svo um að klára að ganga frá og senda allt út. Við vonum að það líði ekki nema 2-3 vikur áður en umsóknin okkar og hinna hjónanna sem fara með okkur fari á stað til Kína.

Við fengum þær fréttir á fimmtudaginn eftir að við skiluðum okkar umsókn, að umsóknir sem áttu að fara út í maí hafa ekki verið sendar út enn og fólki sem átti þær hefði ekki verið látið vita af því. Fólkið hélt að umsóknin þeirra væri farin út og því var þetta vondbrigði fyrir þau að vita að umsókn þeirra væri búin að liggja í skúffu hér heima í stað þess að verið væri að vinna í henni í Kína. Við ætlum því að vera duglega að athuga hvort hún fari ekki örugglega út eftir 2-3 vikur en fái ekki skúffupláss hjá ÍÆ í einhverjar vikur. Því það gerist víst lítið í þeim skúffum sem flýtir fyrir því að við fáum stúlkuna okkar heim.