fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Góða veðrið alveg frá ganga frá manni

Merkilegt að loksins þegar kemur virkilega gott veður þá bara helst ég engan vegin úti. Er búin að vera reyna að sitja út og lesa blöðin bæði í skugga og ekki skugga. Liggja í sólbaði bæði í skugga og ekki skugga, en eftir smá stund verð ég alltaf að standa upp og fara inn. Bara get ekki meir, allt of heitt fyrir minn smekk. Núna bara bíð ég eftir að litla leikskólastelpan mín vakni að sínum blundi svo við mæðgur getum skellt okkur í heitapottin og pabbinn kemur heim úr vinnunni snemma til að vera með okkur. Þá líður okkur vel. Annars er það af okkur að frétta og aðlöguninni að okkur mægðum gengur þetta ágætlega, trúlega dóttirinni aðeins betur en móðirinni. Snóttin vildi samt að mamma kæmi og næði í sig fyrr en áætlað var í morgun, reyndar aðeins um 15 mín. Var ekki tilbúin að fara inn að borða, vildi vera úti að leika og ekkert múður. Ég rauk út þegar hringt var og arkaði upp á leikskóla til að bjarga barninu og bjóst við að koma að henni á orginu, nei, hún var hætt en var voða ánægð að sjá mömmu sína og gaf henni gott klapp á bakið eins hún gerir þegar eitthvað mikið bjátar á og hún hefur saknað foreldra sinna. Þá er slegið svona laust á bakið aftur og aftur eins og hún sé að ró okkur. Því við gerum þetta svo oft við hana þegar við erum að róa hana niður.
Við ætlum bara að vera fram á hádegi í þessari viku í leikskólanum og sjá svo til í næstu viku hvernig gengur að lengja daginn og fara að taka blundin þar. Um helgina ætlum við að fara í berjarmó til Grundarfjarðar og gista hjá afa og ömmu með og leyfa ömmu Herborgu líka að koma með okkur. Og besta vinkonan okkar ætlar að koma líka hún Auður Lára og foreldrar, en þau kíkja á laugardaginn til okkar og tína ber með okkur. Hlökkum mikið til.

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Er ein heima í kotinu

Það láku nokkur tár niður kinnina áðan þegar ég gekk með tóma kerruna heim frá leikskólanum. Dóttirinn skil eftir í fyrsta sinn þar og mamma fer heim. Snúllan vildi reyndar ekkert vera mikið að kveðja mig. Fyrst fór ég að fá mér kaffi og kyssti hana bless og sagðist vera fara að fá mér kaffi sopa. All í lagi með það. Stuttu seinna sagði deildarstjórinn að við mættum bara fara heim og ná í börnin rétt fyrir hádegi. ÚFF. Ég fór að kveðja hana þar sem hún var að leika sér við eldamennsku. Hún mátti ekkert vera að því að kveðja mig, of mikið að gera og trúlega að sjóða upp úr öllum pottum hjá henni. Rétti mér kinnina og leyfði mér að kyssa á hana. Ekki laust við að maður yrði smá sár, átti ekki að vera svona spennuþrugin kveðjustund núna? Ég veit svo sem að þetta boðar bara gott eitt og hún er að skemmta sér vel og kann að leika sér. Hver verður ekki líka þreyttur á að leika við næstum fertuga konu í níu mánuði? Vonandi ekki pabbinn, uhmm.
Á út leið heyrði ég smá grát, var þetta mín, lagði við hlustir og nei ekki heyrðist mér það.

Núna sit ég bara heima í góða veðrinu og veit í raun ekkert hvað ég að mér að gera, ekki að ég hafi ekki nóg að gera, jú það vantar ekki. Kannski ég fari út að vökva, það veitir ekki af því, þar til ég má ná í litlu stelpuna mína aftur. Ég verð trúlega mætt alveg á hurðarhúnin á þeim tíma sem við megum ná í börnin. Svo framarlega sem ekki verður hringt áður og hún farin að sakna mín, nei ég held að svo verði ekki.


þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Orðin gildur meðlimur í bloggsamfélaginu

Jæja hvernig væri að gerast bloggari aftur eftir langt og mikið hlé. Er reyndar áfram einkaritari dóttur minnar en ætla kannski að reyna að hripa hér línu og línu um hugarefni mín. Þau eru ekki mörg þessa daganna, þar sem dóttirin sem öll þessi bloggsíða hefur snúist um, áður en ég fór í frí frá henni, á hug minn allan. Fríið var reyndar tilkomið vegna þess að í Kína er ekki vel séð að fólk sé að Blogga mikið og skrifa sínar skoðanir og ég komst því ekki inn á Bloggið þar í landi. Þegar heim var komið hafði hreinlega öllu verið stolið úr huga mér um lykilorð og aðgangsorð að þessari síðu. Hver veit nema þeir hafi stolið því úr huga mér í kínalandi, maður veit aldrei. En nú dreyf ég í það að fá mér nýtt lykilorð , ekki að það hafi verð svo mikill vandi, bara framtaksleysi og tímaleysi.

Tími hvað er það, ég hef aldrei haft svona mikinn tíma eins og í síðustu mánuði en samt aldrei gert eins lítið í verkum eins og þessa sömu mánuði. Þá á ég við að gera handavinnu, taka til í skúffum og skápum, þrífa heimilið, þrífa bílinn, reyta arfa og gera eitthvað af viti í garðinum og bara það sem ég var vön að gera hér áður fyrr. Og það besta við þetta allt er mér er svo alveg sama að ég hafi ekki verið að gera neitt mikið af þessu og stressa mig ekki yfir neinu af þessu ógerðu. Ég hef nefnilega átt svo ómetanlegan tíma með dóttir minni þessa 9 mánuði sem við erum búin að eiga saman frá því við hittumst fyrst hún og ég og pabbi hennar, í Kína, því merkalandi sem við eigum svo margt að þakka. Stundum er gólfið þannig að ég hugsa með mér að ég ætti kannski að fara þrífa það, þá kemur lítil stúlka með bók í hendi og biður um að hún sé lesinn og þá segir maður ekki: "nei, mamma skúra fyrst". Heldur er er sest niður og lesið, og þar sem það dugar þessari litlu stelpu ekki að bókin sé lesin einu sinni og greiðslan fyrir hverja lesningu er ómótstæðileg eða einn koss á munnin, þá les maður aftur og aftur allt upp í 10 sinnum sömu bók og þá er bara komið með aðra bók. Þegar þessu er lokið er komin tími á að skipta um bleyju eða gefa að borða og þá má gólfið alveg vera skýtugt eitthvað áfram, setjum frekar föt í eina þvottavél af litlu dömunni, hún getur hjálpað við það og gerir það óumbeðin í það minnsta ennþá. Ekki víst að svo verði í mörg ár í viðbót. Og svona hafa þessir níu mánuðir liðið að mestu, og við öll alveg alsæl með það. Segi ekki að stundum höfum við foreldrarnir drifið okkur í að skúra gólfin svo hægt væri að ganga hér um án þess að sitja fastur í sömu sporunum í marga daga. Ég er nefnilega næsta viss um að þegar fram líða stundir og ár þá komi ég ekki til með að segja við sjálfa mig með söknuði, "æ, mikið vildi ég að gólfin og skúffurnar hefðu nú verið aðeins hreinni hjá mér þarna um árið sem dóttirinn var lítil og mikið hefði nú verið gaman að hafa náð að skúra svona 100 sinnum oftar en ég gerði" Ó nei, ég get með gleði sagt að ég átti góða stundir með dóttirninn við að gera það sem hún vildi gera og hafði virlega gaman af því. Getið þið líka sagt þetta, ég vona það.

Núna er hugur minn í smá uppnámi og verður trúlega næstu daga, þar sem snúllan litla er að byrja á leikskóla. Áhyggjur eru þær að hún gráti svo sárt þegar ég fer en í innst inni eru þó mestu áhyggjurnar þær að hún gráti ekki þegar ég fer og sakni mín ekki eins sárt og ég hennar. Hún sýndi ekki mikla takta til söknuðar í dag sinn annan dag á leikskóla. Lék sér hin besta og spurði varla efti mömmu gömlu, fór út með hinum krökkunum og lék sér og dundaði voða góð. Á meðan sat ég inn á kaffistofu tilbúin til að rjúka upp og hlaupa út og bjarga litlu stelpunni minni. Ó nei, þegar ég svo kom út búin að gefast upp á að bíða eftir að hún færi að gráta og sakna mín og fór til hennar og heilsaði henni, leit hún upp og sagði mér að hún væri að hjóla eða "hóla mamma". Rétt eins og ég hefði aldrei farið neitt. Kannski hefur bara gert sér grein fyrir því að ég fór ekkert, ég var jú alltaf á svæðinu. Ég vona það allavega að það sé skýringin að hún sé bara svona afburðar klár og hefði saknað mín ef ég hefði farið af svæðinu. En það kemur í ljós á morgun þegar ég fer að svæðinu og sit heima og naga af mér neglurnar um að nú sé barnið ómögulegt án mín, en hún leikur sér og dundar eins hún á jú að gera. Sjáum til hvað morgundagurinn hefur að færa mér í þessum efnum.