þriðjudagur, september 24, 2002

Þá eru loksins komnar góðar fréttir frá ÍÆ, umsóknirnar sem áttu að fara út í maí eru loksins farnar á stað til Kína. Samkvæmt því þá ætti umsóknin okkar hjóna að fara út í þessari viku (vonandi) eða í síðasta lagi í næstu viku. Þegar hún er farin út er ekkert sem við getum gert til að flýta fyrir, nema að senda kínverjum hugskeyti og vona að þeir móttaki það og sendi okkur uppl. sem fyrst. Þegar umsóknin er lögð á stað út þá má segja að okkar "meðganga" sé hafin. Það góða við ættleiðingu er að við hjónin verðum jafn "ófrísk", ættleiðing er því í anda jafnréttisins.
"Meðgangan" hjá mér verður samt frábrugðin venjulegri meðgöngu að mörgu leiti, t.d. er hún í um 12-14 mánuði og ef ég geng með framyfir er ekki hægt að setja mig á stað, (þýðir lítið að senda mig á stað til Kína) né get ég sett neitt á stað. Annað sem ég vona að verði mjög frábrugðið er líkamsþyngdin, ég vona að ég nái að létta mig sem nemur að minnsta kosti einni meðgöngu þyngd í stað þess að bæta henni á mig. Vonum að það gangi eftir.

Ég er búin að setja inn smá um góð ráð og athugasemdir sem við hjón höfum fengið í gegnum árin. Kannski var ég smá hörð útí fólk sem gefur þau, fólkið vill okkur bara vel og trúlega hefði ég sagt eitthvað svipað við einhvern sem væri í þessu ef ég hefði ekki gengið í gegnum þetta sjálf. En það er nú samt von mín að þið sem lesið þetta og eigið eftir að hitta fólk sem er í barnaglímunni hugsið ykkur um áður en þið gefið þeim góð ráð að þessu tagi. En svo má nú líka bara hlæja af sumu af þessu, því svona eftir á er þetta bara fyndið.

Þakka ykkur aftur fyrir sem hafið skrifað í gestabókin og þið megið alveg skrifa aftur og aftur, um að gera. Svo sjáum við til hvað ég verð dugleg næstu daga.