miðvikudagur, september 03, 2003

Áfram heldur sagan endalausa (að manni finnst stundum), ekkert lát á þessari bið sem maður þarf að fara í gegnum. Nú er nokkuð út séð um að það gerist ekki mikið hjá okkur í þessum málum í þessari viku. Maður er svona að reyna að koma sér niður á að trúa því að þessi vika sé ætlað að vera vikan okkar, næsta vika hefur alla möguleika á að ná þeim titli.

Meira segja bíllinn minn er farin að haga sér jafn furðulega og ég geri þessa daganna. Fór með hann á verkstæði þar sem ég er búin að heyra einhver aukahljóð í honum síðustu 2-3 vikur og einnig er hann stundum leiðinlegur að taka á stað, eins og hann snuði eða eitthvað þannig. Jæja, hringdi svo í dag upp á bílaspítala til að athuga hvernig honum liði og hvort hann mætti koma heim. Ekkert að honum, gáfu honum smá næringu (smurningu, ekki þá hinstu þó) en fundu ekkert að honum af því sem ég var búin að lýsa leituðu og leituðu en ekkert fannst. Sagði þeim að þetta væri trúlega eitthvað sálrænt hjá honum og held að þeir hafi hugsað sem svo að eigandi ætti við sálræn vandamál að strýða. Þannig að ef þið vitið um góðan bílasálfræðing sem getur tekið eigandan með sér í tíma þá endilega látið mig vita sem fyrst. Til að bjarga því sem bjargað verður að geðheilsu okkar hjóna, því Friðjón er lítið betri en ég, þá ætlum við að fara í sumarbústað um helgina með tveimur öðrum hjónum sem eru að ættleiða og hafa það huggulegt og bíða saman. Þá þurfum við ekkert að vera að útskýra fyrir hvert öðru ef við erum eitthvað fljót til að æsa okkur yfir engu og högum okkur furðulega. Allir skilja hvað er í gangi og hugsa bara: "Ó, hvað ég skil hana/hann, þau eru alveg eins og við". Svo komum við heim á sunnudaginn, endurnærð og tilbúin í að bíða í þessa fáu daga sem við þurfum að bíða í að næsta bið byrji. :-)

Ef satt er það sem stelpurnar á Internetinu segja um að upplýsingarnar hafi verið settar í póst í dag í Kína, þá ætla ég að leyfa mér að vona að við heyrum af okkar upplýsingum á miðviku- eða fimmtudag í næstu viku (hef ég nokkuð sagt þetta áður, er farin að kannst svo við þessa yfirlýsingu). Fréttirnar hafa það eftir einhverjum doktorum að fólk sem er bjartsýnt sé miklu heilsuhraustari en þeir sem eru svartsýnir og svei mér ef ég held bara að ég sé dæmi um það. Um leið og ég fór að hugsa neikvætt núna í þessu ferli í fyrsta skipti í langan tíma, fékk ég næstum flensu! Bjartsýni og hlátur er það sem tryggir góða líkamlega og andlega heilsu, ekki spurning og ég tel mig eiga nóg af þessu svona flesta daga ársins fyrir utan þessa nokkra daga sem eru að líða núna.

Krossum fingur og tær og allt sem hægt er að krossa, fætur líka ef því er að skipta og vonum það allra besta. Hvað eru nokkrir dagar á milli vina, hellingur reyndar þegar þetta er annarsvegar, enda bara búin að reyna í um 3.500 daga með öllum ráðum að verða mamma. Þannig að ég tek það ekki til greina þegar sagt er við mig að ég verði bara að vera þolinmóð aðeins lengur, því ég er alveg að verða búin með þann kvóta og það er ekki úthlutað á hverju ári eins og með fiskveiðikvótan. Hjá sumum dugar þessi kvóti ekki nema í 5-6 mánuði, hafið þið ekki heyrt í kvenfólki sem setur allt á annan endan viku eftir að þær byrja á að reyna að verða ófrískar og ekkert gerist. Vildi sjá þær standa hér 10 árum seinna og brosa og segjast vera alveg rólegar.
Sko nú er ég farin að rugla alveg út í eitt og því ráð að hætta þessum skrifum eða stroka þetta út. HUUMMMMM æ leyfum þessu bara að standa.

Er að fara að setja inn myndir af bútasaumsteppinu sem ég var að klára og myndum í barnaherbergið.

sunnudagur, ágúst 31, 2003

Úfff, þessir dagar eru frekar taugatrekkjandi, verður ekki annað sagt. Ég er búin að vera eitthvað slöpp síðustu daga og stundum alveg á því að spennan sé að vinda úr mér alla orku, en trúlega er þetta einhver angi af einhverri pest. Þoli illa að vera hálf slöpp þessa daganna, maður er nógu viðkvæmur fyrir að ekki bætist eitthvað svona við. Vona að þetta láti sig hverfa í dag eða morgun.
Maður er alveg hættur að vita hverju maður á að trúa um hvort líklegt sé að upplýsingar komi í næstu viku eða þar næstu eða jafnvel síðar. Þær upplýsingar sem fólk erlendis fær hjá sínum félögum eru svo misjafnar að það hálfa væri nóg. Sumir segja að upplýsingar hafi verið sendar í síðust viku, aðrir segja að þær verði sendar út í þessari viku og enn aðrir ekki fyrr en um miðjan mánuðinn. Eitt er víst að ég ætla að trúa því aðeins lengur að þær komi í næstu viku, meika ekki alveg að trúa að við þurfum að bíða í 2-3 vikur í viðbót. Verður betra að bæta einum og einum degi við heldur en þessum vikum. Ég get alltaf logið mig áfram í gegnum einn og einn dag, ekki vikur. Það er það sem fer mest í mann í þessu ferli maður veit ekkert niður á hvaða dag maður getur talið. Maður telur niður á einhvern líklegan dag og svo gerist ekkert á þeim degi. Þá verður maður að byrja að telja aftur niður á einhvern annan dag sem maður setur sér sem líklegan dag til stórtíðinda og ekkert gerist þann daginn og svona heldur leikurinn áfram þar til vonandi eitthvað gerist.

Ég náði að klára bútasaumsteppið sem ég er búin að vera að gera fyrir litlu snúlluna, tók ekki nema 3-4 tíma að klára loksins þegar sest var niður. Roslalega flott. Er núna að reyna að klára alla lausa enda á hinum ýmsu málum þannig að sem mest verði klárt þegar við förum út. Nú er bara að klára alla hinu litlu hlutina, klára að prjóna peysuna, gera barnamyndir á vegginn í herberginu og taka til hér og þar. Nóg að gera og ekki veitir af til að tímin líði sem hraðast.
Vonandi kem ég með góðar fréttir fljótlega.