laugardagur, júlí 12, 2003

Nú er ég byrjuð á að læra kínversku, byrjaði í gærkveldi á fyrstu tveimur köflunum á námskeiði sem Friðjón keypti í vetur. Ég þarf reyndar að vera dugleg næstu daga ef ég ætla að ná honum þar sem hann er komin að kafla 9. Það er raunar mjög gaman að læra táknin í kínverskunni. Í þessari kennslu er sýnd hvernig táknin hafa þróast í gegnum aldirnar og þannig sér nær maður meiri skilningi á því. Ég hef ákveðið að vera ekki að leggja mikið upp úr framburði og tali eins og er því það verður trúlega erfitt að muna þau öll því maður getur ekki séð á tákninu hvernig það er borið fram eins og við lesum framburðinn út úr okkar letri. Svo er mismunandi áherslur á orðin hækkandi og lækkandi eða í sama tón. En ef maður getur þekkt táknin í blöðum og vefsíðum þá er ég nokkuð ánægð með mig. En ég er rétt að byrja þannig að ég á langt í land með að geta lesið eitthvað mikið á kínversku. Þetta er ein leiðin til að drepa tíman þangað til við fáum upplýsingar og förum síðan út.

Nú er bara einn dagur eftir af sumarfríinu mínu þar sem ég fer að vinna aftur á mánudaginn, Friðjón þarf ekki að fara fyrr en á þriðjudag :-( Þetta er búið að vera alveg ágætt frí, held svei mér þá að þetta hafi verið mest afslappandi frí sem ég hef farið í þar sem við fórum frekar lítið á flakk. Við sáum ekki tilgang að vera fara í sumarbústað þar sem við höfum það svo gott hér heima, hér er allt sem er í sumarbústað. Heiturpottur, rólegt umhverfi og svo er hægt að keyra í 10 mín og komast í sveitina út að labba eina sem vantaði er sólin. Sólin hefur sjaldan verið fylgifiskur okkar í sumarfríum nema þá að við förum erlendis til landa þar sem sólin skýn meiri hluta ársins. Fengum einn dag í gær sem dugði til þess að við þurfum ekki að skríða snjóhvít til vinnu aftur. Náðum eins og góðum íslendingum sæmir að fá smá sólbruna á andlitið og hér og þar á skrokkinn. Svo bjargar bara brunkukremið því sem vantar uppá, enda víst miklu hollari fyrir mig að nota það en sólina.

fimmtudagur, júlí 10, 2003

Nú er bara komin góður fílingur í mann, við hjónin erum alltaf að verða spenntari og spenntari enda alltaf að styttast í að við fáum upplýsingar, vonandi. Við erum búin að mála kvennasmiðjuna eins og herbergið kallast en þar eigum við snúllurnar á heimilinu að eiga okkar pláss með okkar dót. Herbergið orðið fallega bleikt með flottum bangsaveggfóðursborða. Svo er búið að taka aðeins til hendinni hér inni og auka plássið í stofunni og skipta út sofasettinu fyrir 3 sæta hægindastól. Allt eftir óskum húsbóndans. Það verður að vera gólfpláss fyrir heimasætuna til að leika sér. Einnig er komin nýr skápur í forstofuna því nú fer útiflíkum að fjölga hér á bæ allt er þetta í boði ríkistjórnarinnar þannig að það er eins gott að við fáum vaxtabætur í samræmi við útreikning minn.

Það er meira búið að kaupa því nú er komin sæng og koddi handa lítilli snúllu og sængurföt, svo fór ég aðeins á útsölu í dag (stórhættulegt) og þar var aðeins bætt á barnafötin. Er að reyna að koma mér út úr að kaupa bara bleikt þannig að nú fékk fjólublátt að fljóta með meira segja blátt líka. Svo er búið að skoða kerruvagn þannig að það verður hægt að kaupa hann þegar við erum búin að fá upplýsingar. Þá er það bara rúmið, bílstóll og eldhússtóll sem þarf að kaupa, fyrir utan alla litlu hlutina sem þarf að kaupa líka. Skildi maður einhvern tíman verða búin að kaupa þetta allt, manni finnst alltaf endalaust vera eitthvað sem bætist á listann hjá manni. En það er svo sem nægur tími ennþá til að kaupa þetta smátt og smátt.

sunnudagur, júlí 06, 2003

Það er nú meira hvað fréttir geta verið vitlausar, maður fer nú að spá í hvað sé mikið rétt af öðrum fréttum þegar maður heyrir fréttir um málefni sem maður þekkir vel og þar kemur bara eitthver vitleysa fram. Það var sagt í fréttum í gær að það færu fimm foreldrar út til Kína í haust að ná í jafnmörg börn í viðbót við þessi 5 sem eru að fara út núna eftir nokkra daga. Það rétta er að það fara 18 foreldrar út í haust að ná í jafnmörg börn. Í hóp 3 eru 6 foreldrar og í hóp 4 (sem við hjónin erum í) eru 7 og í hóp 5 eru 5 foreldrar. Veit ekki hvaðan þeir hafa þessar upplýsingar eða hvort þeir búa þetta til. Þetta er allavega alrangt hjá þeim. Flestar fréttir sem sagðar hafa verið um ættleiðingar frá Kína hafa verið eitthvað bjagaðar það er eins og sé aldrei hægt að segja rétt frá. Svo þurfum við að svara spurningum vina og ættingja um það sem fram kom því við höfum verið að segja þeim allt annað en þau heyra í fréttum. Ótrúleg frétta mennska, getum maður kannski ekki treyst að fréttir af ýmsum málefnum séu réttar???
Fólkið sem er að fara út núna hefur sagt að ágangur frétta manna sé alveg rosalega mikill og ekki hægt að fá frið fyrir þeim og þeir vilji helst fá að mæta til að taka á móti þeim á flugvellinum þegar þau koma heim með börnin. Auðvitað vilja þau ekki sjá fréttamenn þar því þetta er stund sem þau vilja eiga með fjölskyldum sínum en ekki allri þjóðinni. Vona bara innilega að fréttamenn skilji þetta og virði óskir fólks um frið frá þeim. Það er nógur tími til að fá viðtal seinna við fólkið ef það vill þá veita þau, börnin eru ekki að fara neitt þau eru komin til að vera því þetta er fjölskylda fyrir lífstíð, en það er það sem ættleiðing er.