Sumar og sæla, hiti og svæla,
Rúmir tveir dagar eftir í hitanum og góða veðrinu. Voða verður nú gott að koma heim í kuldan. Hitin hér er búin að vera í dag og í gær um 27 stig og samt hefur engin sól verið. Þetta er orðið alveg ágætt af hitanum, maður getur lítið hreyft sig án þess að svitan og maður er þvalur allan daginn, nema þegar maður situr í loftkældum bílnum og situr inn við á kvöldin með viftuna á fullu á sér. Varla sætt inn í íbúð þar sem viftan er á fullu allan tíman, á nóttunni líka, maður sefur í 4 vindstigum eða meir. Voða notalegt.
Þrátt fyrir þetta kvart og kvein er voða notalegt að vera hér, Ellý alveg elskar að vera hér, tala nú ekki um þegar hún er að leika við hann frænda sinn Eysteinn. Þau eru búin að vera saman stóran hluta dagsins í gær og í dag heima hjá honum að leika sér og það veit varla nokkur maður af þeim. Eru búin að eignast voða góða vini, danska krakka sem eru milli 10 - 12 ára gamlir. Eru að leika við þau meira og minna. Við fullorðna fólkið alveg hissa hvað þessir krakkar nenna að leika við þau, í boltaleikjum, bera þau á hestbaki og ég veit ekki hvað. Þau eru meira segja farin að koma og kalla á þau litlu og biðja þau um að koma að leika.
Dagurinn í dag endaði þó ekki vel hjá litlu prinsessunni minni, hún var í boltaleik og þau voru öll á fullu að hlaupa um og ærslast og þá allt í einu steig hún ofan á geitung sem stakk hana í ilina. Þarna sat hún með geitunginn fastan í sér og hann reyndi að losa sig en gekk ekki vel, þar til loksins hann braut broddin af og flaug í burtu og eftir sat lítil stelpa hágrátandi. Hún fann mikið til í fætinum og grét svo rosalega að mér stóð ekki á sama, hún er nú ekki vön að vera nein dramadrottning þannig að svona heiftaleg viðbrögð hræddu mig verulega. Bróðir minn náði broddinum út sem var nú eins gott. Ég sendi bróðir minn eftir nágrönnum sínum til að leita ráða, og það koma þarna nokkrir nágrannar og sturmuðu yfir henni. Kona ein kom síðan með lauk og sagði okkur að strjúka yfir með honum og svo klaka í þvottapoka. Ellý róaðist samt ekki fyrr en eftir rúman hálftíma og þá á leið heim í húsið okkar hér. Þegar heim var komið steinsofnaði hún, var alveg úrvinda litla skinnið mitt. Mikið tók nú á að horfa svona á hana, hún var svo hrædd að ég hef svei mér þá aldrei séð eins mikla angist úr augum neins áður.
Á morgun á svo að reyna að versla smá, enda margt ódýrari hér en heima, fötin eru samt ekki svo mikið ódýrari finnst mér, en það munar miklu á skóm þar munar allt uppundir helming á góðum skóm, eins og td. Ecco skónum. Það stendur til að skóa okkur upp af góðum skóm til að taka með okkur til Kína, því þar er nauðsynlegt að vera í góðum skóm í öllu röltinu sem þar verður farið í.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home