föstudagur, janúar 14, 2005

Spennan læðist

Gögnin fyrir umsókn um forsamþykkið eru komin til ÍÆ og nú bíðum við spennt eftir að fá bréf frá ráðuneytinu um að þeir séu búnir að senda inn beiðni til barnaverndarnefndar hér í bæ um að gera á okkur úttekt og meta okkur sem hæfa foreldra. Eins gott að þeim takist að sjá að við erum hæf, svona Ellýar vegna.

Það er ekki laust við að núna sé spennan farin að læðast að manni og maður svona að fatta að við erum komin á stað aftur í ættleiðingarferlið. Við vitum auðvitað ekkert hvernig það á eftir að ganga hjá okkur en vonandi gengur þetta hratt og vel fyrir sig og hver veit hvort við verðum orðin fjagra manna fjölskylda um næstu jól, alveg mögulegt ef það að fá forsamþykkið gengur hratt fyrir sig. Ef svo er þá liggur mjög líklega einhverstaðar lítil stelpa eða strákur í rúmi í Kína sem á eftir að verða okkar barn, því ef við fáum upplýsingar um barnið í lok þessa árs þá er mjög líklegt að það sé 1-3 mánaða núna. Ótrúlegt þegar maður fer að spá í þessa hluti frá þessum sjónarhorni og reyndar frekar sárt að hugsa um þetta líka því auðvitað vildi maður geta haft barnið hjá sér fyrsta ár þess, en því verður því miður ekki viðkomið. En það á eftir að vera í huga okkar allan biðtíman og ást okkar á því eftir að vaxa þar og dafna á meðan á biðinni stendur. Það er það sem gerðist hjá okkur með Ellý, þegar hún kom í fangið á okkur var það ekki ást við fyrstu sýn heldur ást sem hafi dafnað í brjósti okkar í marga mánuði. Hún var okkar og okkur alltaf ætluð, eða því trúum við. Hverju öðru er líka hægt að trúa þegar maður eignast svona yndislegt barn sem er eins og hugur manns og veldur því að maður vill bara vera með henni allan daginn, sinna henni, leika við og tala nú ekki um hlæja með því það gerum við svo mikið af. Mikið hlakkar mig líka til að geta farið að undirbúa Ellý undir að hún eigi eftir að eignast systkini, en það verður ekki gert fyrr en í fyrsta lagi þegar umsóknin er farin út til Kína. Það eru því skemmtilegar tímar framundan hér í Engjasmáranum, ekki hægt að segja annað.

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Gengið skipulega í verkin

Það er óhætt að við hjónin göngu ólíkt skipulegri til verka nú í söfnun gagna er í síðasta ferli. Samt vorum við fljót þá að okkur fannst og nokkuð skipulögð. Núna er hægt að prenta út flest öll eyðublöð á netinu og hægt að fylla þau út hér heima, safna gögnum sem þarf og fara síðan með allt til ÍÆ láta send inn til Dómsmálaráðneytið. Núna erum við komin með öll gögn í hendur og ekkert að vandbúnaði að skila þeim inn á morgun ef skrifstofan er opin. Læknirinn okkar var snöggur að fylla út læknisvottorðið okkar og sagðst ekki sjá neina alvarlega sjúkdóma né fötlun hjá okkur sem ættu að koma í veg fyrir að við fengum forsamþykkið. Skildi aldrei þessi læti í dómsmálaráðuneytinu síðast, eina ógnunin sem hann sá á þyngd okkar væri að við mundum setjast ofan á barnið og meiða það. En þessi hræðsla um að þeir í ráðuneytinu endurtaki leikin frá því síðast gerir óneitanlega vart við sig, en auðvitað þýðir ekkert að vera velta sér upp úr því.

Var að vinna út í Keflavík í dag og segi nú bara ekki mundi ég nenna og tíma að eyða klukkutíma á dag í að keyra á milli staða til að komast í og úr vinnu. Frítíminn minn er miklu dýrmætari en það að hægt sé að eyða honum í bíl á milli staða. Dóttir mín er betur komin með að eiga þennan tíma með mér og ég henni. Þurfti að vinna frameftir og mikið rosalega var ég farin að sakna hennar þegar klukkan var að verð 6. En ég verið víst að þola það í næstu tvær vikur að fá ekki að verja þeim tíma á dag sem ég mundi helst vilja. En vonandi verður það ekki nema þessar tvær vikur, ég vinn þá líka frekar á kvöldin þegar hún sefur heldur en að skera niður okkar samverutíma. Hann er mér og henni of dýrmætur til þess að missa af honum. Er svo innilega sammála, forseta, forsetaráðherra og biskupi vorum um að fjölskyldan er ekki í góðum málum. Vinnan er orðin að aðaláhugamáli stór hluta fólks í stað þess að vera eitthvað sem á að gera fólki kleift að vera meira saman, þá er ég að tala um fólk sem á skít nóg af peningum og hefur efnið á að vera meira með fjölskyldu sinni en ver honum frekar í vinnunni. Skömm af þessu.

sunnudagur, janúar 09, 2005

Þá hefst ferlið aftur

Jæja það upplýsist hér með að við hjónin erum byrjuð á því að afla gagna fyrir næstu ættleiðingu. Spennan er aðeins að byrja að koma sér fyrir hjá okkur en trúlega eigum við aðeins meira að þolinmæði í þessu ættleiðingarferli en því síðasta. Enda með litla dásamlega dóttir okkur við hlið sem sér um að stytta okkur biðina til muna. Við erum heldur ekki lengur utangáttar í þjóðfélaginu sem fólkið sem á engin börn og passa hvergi í neitt munstur. Þegar fer að líða á ferlið og umsóknin farin til Kína þá byrjum við að undirbúa litla gullmolan undir það að hún eigi ekki eftir að eiga okkur alein það sem eftir er og að hún þurfi að læra að deila okkur með litlu systir (nú eða bróðir) þegar hún/hann kemur inn í líf okkar þriggja hér í Engjasmáranum. Trúlega á það aðeins eftir að taka á því Ellý Rún á hana mömmu sína með húð og hári og pabba "Gujónshen" líka.

Við stefnum á að skila af okkur gögnum til ÍÆ í þessari viku og vonum svo að allt eigi eftir að ganga eins og í sögu. Óneitnalega læðist að manni smá hræðsla um að ráðuneytið hið góða eigi eftir að velgja okkur undir ugga vegna "fötlunar" okkar en sjáum hvað setur og vonum það besta. Kílóin eru reyndar öll á sínum stað, þrátt fyrir hlaup eftir lítilli snót, þannig að við erum í raun jafn fötluð og síðast.

Svo er bara að sjá hvað ég verð dugleg að skrifa hér til að muna allt sem ég vill muna um þetta dásamlega ferli að ættleiða barn. Ekkert hefur gefið okkur eins mikið og þessi litla snúlla sem hér býr með okkur og kallar okkur "mömmu gillju og pabba dijón" og segirst "ekka ykk vo mikk"