föstudagur, október 04, 2002

Sæl öll sem fylgist með, hér koma fréttir sem við hjónin erum búin að bíða lengi eftir. Umsóknin okkar er farin út , reyndar veit ég ekki hvort það gerðist í dag, gær eða fyrir viku síðan. ÍÆ hefur ekki séð ástæðu til að tiltaka daginn. Hjá okkur sem ættleiðum er þetta dagurinn sem "getnaðurinn" er að mestu lokið, nú erum við hjónin orðin "ófrísk" já og meira segja við bæði. Svei mér þá ef mér líður ekki eins og ef ég hefði fengið jákvæða prufu úr ófrískuprófi, svo hamingjusöm er ég þessa stundina. Hjartað tekur auka slög og dansar af gleði.
Nú getum við ekkert annað gert en að bíða og vona að Kínverjum lítist vel á okkur og ákveði að senda okkur uppl. um litla sæta steplu sem við megum eiga, elska og ala upp sem okkar eigið barn. Nú get ég farið að setja upp síðuna mína um biðina löngu á heimasíðunni minni. Það á eftir að vera löng síða skal ég segja ykkur, því þessi bið á eftir að vera löng og erfið. Meðgang í 12-14 mán., úff, flestum finnst nú 9 mán. nóg.

Jæja verð að rjúka að kaupa með kaffinu fyrir fund hjá ÍÆ í kvöld sem ég er víst í forsvari fyrir með fleirum.
Skrifa fljótlega aftur og segi ykkur hvernig "meðgangan" verður.

mánudagur, september 30, 2002


Jæja, þá er ég fallin í föndurbindindinu mínu, er komin í föndurklúbb og ætlaði nú heldur betur að klára allt þetta ókláraða þar. En viti menn þar var ein sem var að gera jólakort og þá kom jólakortafiðringur í mig. Ég endaði á allsherjar fyllerí í Föndru og keypti þar efni í jólakort, sem betur fer átti ég inneign þar, því ég er búin að versla svo mikið. Fór svo í föndurhornið í Garðheimum og bætti aðeins við, sem sagt frekar slæmt tilfelli. En hvað með það nú er bara að prenta út myndir á netinu klippa þær niður og líma þær saman og gera úr þeim kort. Kannski set ég myndir af nokkrum inn á síðuna til að gefa ykkur hugmyndir. Það er alveg nauðsynlegt að hafa nóg að gera á meðan maður er að lesa undir löggildingar prófin næstu 2 mánuðina (þetta hljómar eitthvað skrítið). Læt það bara ráðast hvað ég sendi mörgum jólakort, hvað ég næ að gera mörg. Einhver sagði við mig að föndur væri á við tíma hjá góðum sálfræðing, ég bara trúi því og sleppi því að fara til hans og föndra þeim mun meira.

Ef við snúum okkur að umsókninni okkar hjóna sem er búin að vera á leiðinni til Kína núna í rúman mánuð, þá eru allar líkur á því að hún fari á stað í vikunni. Kínverska sendiráðið búið að halda veislu fyrir nýja sendiherran og þá kannski er hægt að fara að stimpla umsóknirnar okkar og koma þeim út. Við hjónin ætlum sko heldur betur að halda upp á það og fara út að borða. Ætluðum að gera það þegar við skiluðum inn til
ÍÆ en ákváðum að geyma það þanngað til að hún væri farin út.

Jæja nóg komið að ruglinu í bili