fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Fíllinn og við...

...eigum það sameiginlegt að ganga lengi með börnin okkar. Í dag 17. ágúst er komið ár síðan CCAA, ættleiðingarsamtökin í Kína skráðu umsókn okkar inn í kerfið hjá sér. Ekki datt mér í hug þá að ég ætti eftir að þurfa bíða svona lengi þann daginn. Ó, nei þá bjóst ég við að vera komin út í maí í allra síðasta lagi.

Þessi bið hefur oft verið kölluð rússíbanaferð í tilfinningalífi okkar sem ættleiðum, þar sem við bíðum spennt eftir næstu kröppu beyju og hæð, hvað gerist þegar þær eru að baki. Í dag var okkur þeytt upp á eina af stærstu brekkunum sem er með hvað kröppustu beygjunni.

Á netinu ganga þær kjaftasögur að við gætum fengið upplýsingar í þessum mánuði, já í ágúst og það á þessu ári. Okkur finnst það reyndar alveg ótrúlegt miðað við ganga mála síðustu vikur og mánuði, en þegar svona heyrist getur maður ekki annað en setið sem fastast í rússíbananum og beðið eftir að rúlla niður brekkuna eða stoppa þar í gleði með upplýsingar í hendinni. Ég er frekar á því að okkur verði þeytt niður brekkuna og í beygjuna á fullum krafti, þegar vonir okkar eru komnar svo hátt næstu daga um að kannski, gæti þetta mögulega, kannski, gerst. Það versta við þetta allt er að maður rembist eins og rjúpa við staur að trúa ekki svona orðrómum, þannig að maður verði ekki fyrr vonbrigðum einu sinni enn, en þegar upplýsingar mánaðarins koma þá hafi vonir manns samt náð að hreiðra um sig í huga manns, náð að skjóta niður vonarsprotum, sem síðan eru rifnir harkalega upp með rótum.

Voða hljómar þetta eitthvað mæðulega hjá mér, eins og ég sé alveg að verða búin að fá nóg af þessari bið, sem er reyndar alveg satt. En í þessum tveimur löngu meðgöngum mínum hefur mér samt lærst að anda djúft áður en ég fer alla leið upp í efstu brekkurnar og áður en rússíbaninn fer á fullaferð niður aftur. Ég held mig við þá trúa mína að það sé möguleiki á upplýsignum í september en október sé líklegri til frétta. Svo er bara að bíða áfram, það er nú einu sinni eitt af því sem maður er virklega góður í.

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

12 mánaða meðganga...

... eða rúmlega það. Fer eftir því hvenær maður byrjar að telja. Ef við miðjum við þá frægu dagsetningu 17. ágúst sem er dagurinn sem Kinverjar meðtóku umsókn okkar um barn til ættleiðingar inn hjá sér þá vantar aðeins réttan sólarhring upp á að við séum gengin með í 12 mánuði. Spurning hvort það sé tilefni til að halda upp á eða vera dapur. Það er jú ekki allir sem fá að upplifa svo langa "meðgöngu" sem betur fer segi ég nú bara, því ég held að það sé óhætt að segja að það sé farið að taka smá í að ganga svona lengi með. Kannski ekki grindargliðun á ferð, mætti kannski frekar tala um hjartagliðnun eða fyrirvara verki í sálinni. Stundum hefur þetta lítil áhrif á mann svo suma daga þá er maður alveg búin að fá nóg af þessari óvissu sem fylgir þessu. Maður er alltaf að setja vonir sínar við nýjan mánuð en hann kemur og fer án þess að nokkuð gerist. Fólk er alveg hætt að skilja hvað ég er alltaf að rugla með að ég sé á leið út og stundum hef ég það á tilfinninguni að fólk haldi að ég sé haldin einhverri þráhyggju um að þetta sé allt að fara gerast. Þegar ég svo hitti það næst eftir allt upp í 3-5 mán og það fer að spyrja hvort ég sé ekki búin að fara, þá fæ ég svona á tilfinninguna að ég sé ekki alveg með fulla fimm. Ég er hætt að reyna útskýra þetta fyrir fólki það skilur þetta hvort sem er ekki, því þetta er einhvern vegin svo allt annað tungumál en það er vant varðandi meðgöngur barna.

Hvað er fólk nær þó ég segi þeim að það hafi komið upp leiðinleg mál í Hunan sem tefji ferli, það kallar bara á meiri útskýringar.

Hvað er fólk nær ef ég segi þeim að ofan á allt sé CCAA að flytja, nú tekur það einhvern tíma, já hjá þeim tók það að virðist nokkra mánuði.

Hvað segir það fólki að það séu færri börn til ættleiðingar í Kína. Nú, má fólk þá eignast fleiri en eitt barn??

Til að skilja allt þetta sem á bakvið ættleiðingu er og hvað veldur seinkunn á þessu ferli, þarf langan tíma til að útskýra og það eru margir þættir sem taldir eru hafa áhrif á framvinduna.
Bara það að Ólumpíleikarnir séu haldnir í Kína næst mun að öllum líkinum hafa mikil áhrif á ættleiðingar þaðan árin í kringum leikanna. Kínverjar munu að reyna að draga úr ættleiðingum mánuðina á undan til að það verði ekki áberandi í fjölmiðlum og einnig að það verði ekki mikið um foreldra að ná í börnin sín á sama tíma og leikarnir eru. Ættleiðingar úr landi eru hverri þjóð erfið, þjóðum finnst erfitt að þurfa að viðurkenna það að þær geti ekki brauðfætt þegna sína og séð fyrir þeim. Það þarf sterka þjóð til að standa vel af ættleiðingum úr landi, Kínverjar eiga að mínu mati hrós skilið fyrir að viðurkenna vanda sinn og gera eitthvað í málunum og gera það vel, ættleiðingarferlið þar er talið með þeim bestu í heiminum. Það mætu fleiri þjóðir taka þær sér til fyrirmyndar í þessum málum.

Ættleiðingar frá öðrum löndum eru háð svo mörgum þáttum í heimalandinu að það er með ólíkindum hvað getur haft áhrif á framvindu mála.

En núna bíðum við bara eftir að heyra frá Kína um hvar litla barnið okkar er, hvað það heitir á Kínversku, hvað það er gamalt og er það stelpa eða strákur. Tala nú ekki um að fá myndir og geta farið að gefa því nafnið sem valið hefur verið á það. Við erum þegar farin að mynda tilfinningatengsl við það, því eins og hún Ellý segir svo fallega frá, þá geymum við það í hjarta okkar því við gátum ekki haft það í maganum okkar. Í hjarta okkar stækkar það og dafnar og það gerir ást okkar til þess líka, þrátt fyrir að vita ekkert annað en að það er fætt og liggur einhver staðar í hinu stóra Kína og sefur, eða leikur sér.