Þó maður eignist börnin sín með því að ættleiða þau þá er nokkuð ljóst að maður losnar ekki alveg við "meðgöngukvillana". Ég fékk að kynnast einum slíkum núna í vikunni. Hjónin sem áttu umsóknina sem fór ekki út á réttum tíma til Kína fóru að spyrjast fyrir um umsóknina sína hjá ÍÆ á mánudaginn, þau fengu að vita að hún eigi að fara út í næstu viku. Þar sem við erum búin að búast við að umsóknir okkar færu saman út þá spurði hún hvort okkar færi ekki líka þá. Og viti menn, nei hún á ekki að fara með þeirra var henni sagt og ekkert meir fékk hún að vita. Hún lét mig vita af þessu á mánudagskvöldið og vorum við ekki alveg að skilja hvernig stæði á þessu því umsóknin okkar á að vera tilbúin þá. Þar sem búið var að loka skrifstofunni þá gátum við ekkert gert til að athuga hvernig stæði á þessu. Ég var því hér eins og naut í nývirki, alveg brjáluð, blótaði öllu í sand og ösku. Okkur hafi verið sagt að hún færi núna á næstu vikum og vissum ekki til að það væru fleiri sendingar á leiðinni út nema þessi eina sem hin umsókn þessara hjóna var í. Þetta varð til þess að ég svaf ekkert alla nóttina af áhyggjum um að umsóknin okkar færi ekki út fyrr en í nóvember en þá vissi ég að næsta sending ætti að fara. Ég rétt náði dúr um kl. 6 en fór á fætur um 9 til að reyna að fá upplýsingar um hverju þessu sætti. Friðjón þessi elska var frekar rólegur yfir þessu og sagði að þetta hlyti að vera einhver misskilningur en ég gat nú ekki séð það. Við náum því miður ekki í starfsmann ÍÆ fyrir hádegi og óvissan því ennþá til staðar þegar ég skreið til vinnu á hádegi. Friðjón fór síðan eftir hádegi til að athuga þetta og kom þá í ljós að okkar ætti að fara ásamt 4 öðrum umsóknum um viku á eftir hinum. Ufffff, því líkur léttir, ég hefi kannski átt að trúa Friðjóni strax. Umsóknin okkar er sem sagt alveg að fara út og ég ætti að geta sofið næstu nætur, en best líður mér þegar ég veit að hún er lögð á stað út. En þá fæ ég örugglega einhverjar aðrar áhyggjur, alltaf hægt að finna eitthvað til að stressa sig útaf.
Gillu blogg
Þankagangur Gillu
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home