sunnudagur, ágúst 22, 2004

Síðasti dagurinn í fríi

Nú eru dagar mínir í barneignarfrí liðnir. Hér eftir er það bara vinnan sem tekur við á morgnanna, eins gott að læra að fara snemma að sofa þar sem hér er stefnan tekin á að vera mætt eldsnemma í vinnu, jafnvel kl. 7. Fer þó trúlega eftir því hvenær dóttirinn vaknar. En ef hún heldur uppteknum hætti þá verður vaknað hér kl. 6 næstu morgna. Sváfum út í morgun eða til 7. Lítill frændi í pössun og svaf hjá okkur. Við þrjú komin út að vökva blómin um 8 í morgun, ekkert viss um að nágrönnum okkar hafi fundist við voða skemmtileg, með okkar köllum og látum. En hvað iss, fórum bara út á róló og vorum þar fram á hádegi. Hver segir svo að það sé ekki gaman að vera heimavinnandi húsmóðir. Tala nú ekki um þegar maður fær að hanga á róló hálfan daginn, leggja sig eftir hádegi og fara svo aftur út að leika þegar maður vaknar, eða lita og púsla, lesa sömu bókina aftur og aftur og horfa svo á Bangsímon spólu eða Söngvaborg í 100 sinn í barneignarfríinu. Það er semsagt þetta daglega líf sem ég er að fara að kveðja og fara að setjast inn á skrifstofu og vinna í staðin. Er ekki endilega viss um að þetta séu góð skipti. Er ekki ennþá komin með leið á Söngvaborg og Bangsímon og gæti alveg hugsað mér að hanga á róló í svona góðu veðri. Tala nú ekki um baðferðir sem taka um 2 tíma á morgnanna. Ég get þó sætt mig við að áfram fæ ég að liggja upp í rúmi á kvöldin og lesa sömu bækurnar aftur og aftur og syngja Georg og félagar, aftur og aftur. Það er ekki margt sem toppar þessar kvöldstundir. Einhver kynni að segja að greyi konan ætti nú ekki merkilegt líf, ef þetta væri topparnir á tilveru hennar. Ég hef í það minnst ekki fundið margt í sjónvarpinu sem ég hef þurft að taka upp á meðan ég er að svæfa og fáir atburir utan veggja heimilisins hafa freistað mín svo mikið að ég hafi tekið þá fram yfir að fá að svæfa litlu snúlluna. Líf mitt er kannski fábrotið en frábært.

En nú er um að gera koma sér í rúmið á skykkanlegum tíma, hef ekki farið að sofa fyrir 11 í háa herrans tíð. Verð örugglega andvaka fram yfir miðnætti.

1 Comments:

At 10:29 f.h., Blogger Hafrún said...

Vonandi færðu annað barneignarfrí innan fárra ára.
En ég sé að það eru jákvæðar hliðar á því að fá börnin svona gömul í hendurnar. 1-6 mánaða hafa þau ekkert gaman að Bangsimon og að fara á róló. ;)

 

Skrifa ummæli

<< Home