Vika hinna miklu hrakfalla
Það er alveg með ólíkindum hvað sumir dagar geta verið eitthvað öfugsnúnir. Dagarnir frá því ég varð grasekkja á laugardaginn, hafa verið með ólíkindum skrautlegir, aldrei á minni lífslangri leið hafa atburðir sem setja lífið aðeins út af sporinu hlaðist svona upp á nokkra daga. Nei, það er ekki nóg að það sé einn þannig dagur, heldur hafa þeir verið allir fengið sína smáskammta af hliðarsporum. Fyrsta hrakfallið, (ef svo má á orði komast) varð á laugardagsmorguninn þegar dóttir mín elskuleg gat ekki lengur beðið með að fá að vekja mömmu sína sem átti að fá að sofa aðeins út. Það var því laumast inn rúmlega 9 til að vekja og galsinn var aðeins of mikill þannig að höfuð okkar skullu saman, ekkert alvarlegt að við héldum og kysstum bara á ó,ó, hjá hvorri annarri. Þegar líða fór á daginn og farið var að huga að útferð og ég fór að setja á mig maskarann þá tek ég einhverjum blett á öðru auganu á mér, og reyndi að þvo þennan blett sem þar var. Illa gekk að þvo hann i burtu og kveikti þá gamla konan á perunni að trúlega hefði skellur morgunsins valdið þessu glóðarauga. Allir vita að það þýðir lítið að segja fólki að maður hafi gengið á hurð þegar maður fær glóðarauga, sagan um skell okkar mæðra er kannski að eins líklegri en við bróður minn komumst að því að trúlega væri best fyrir mig að segja fólki beint út að maðurinn minn hafi gefið mér þetta fína auga. Það væri þá búið að koma í veg fyrir að fólk væri að velta því fyrir sér hvort svo væri, því engin trúir því að sannleikurinn sé sagður svona umbúðarlaust. Næsta hrakfall var á sunnudaginn, þegar þvottavélin mín neitaði að þvo fyrir mig lengur, komst samt aftur í gang á mánudaginn eftir símtal í viðgerðarmann. Þá tók handlaugin upp á því að stíflast enda hún notuð líka sem eldhúsvaskur þar sem ekki er ennþá búið að tengja vaskinn í eldhúsinu. Ég náði svo fljótlega stíflunni út án þess að upp úr flæddi. Á leiðinni í vinnu á mánudagsmorgun var hringt og sagt að eldhúsbekkurinn minn langþráði væri að koma, LOKSINS, ég spurði hvað væri langt í mennina, jú þeir voru bara að fara að leggja á stað og yrðu komnir eftir 30 mín. Ég snéri við á punktinum enda búin að bíða í 7 vikur eftir þessum eldhúsbekk með tilheyrandi eldavélaleysi og vaskleysi. Það tók þá auðvitað rúman klukkutíma að koma sér í vinnu og svo voru þeir auðvitað allan daginn að koma þessu upp eða gott sem. Sem betur fer gat ég unnið heima við þannig að ég þarf ekki að vera næstu vikur upp í að vinna upp vinnutapið. Mánudagskvöldið var svo mjög skrautlegt, enda ekki hægt að búast við öðru alltof mikið jákvætt búið að gerast á einum degi. Ég í sakleysi mínu er að lesa fréttir á MBL og rek þá augun í frétt um að allt rafmagn sé farið af LA þar sem maðurinn minn elskulegur er staddur og deginum áður hafi verið hótað að gera hryðjuverkaárás á borgina. Ég "kona eigi einsömul" fékk auðvitað smá sjokk, hvað var um að vera og hvar var maðurinn minn. Ég reyndi að hringja en það var bara skellt á þá var bara að senda sms og hjúkk hann svaraði og var heill á húfi. Kom í ljós að þeir þarna í LA eiga svona gröfumenn eins og við hér sem grafa í sundur mikilvægar rafmagnlagnir. Engir hryðjuverkamenn í þetta skiptið á ferð. Þarna þakkað ég líka mínu sæla fyrir vera ekki þannig gerð að ég gefi ímyndunaraflinu lausan taum heldur hélt ró minni og fór að strauja. Ákvað svo að fara bara snemma að sofa til tilbreytingar ekki of oft sem það gerist, enda átti það ekki fyrir mér að liggja. Ellý Rún var komin með gubbupest og ældi allt út og næstu tímar fóru í að aðstoða elsku litlu stelpuna mína að æla í dall. Fátt eins erfitt og að horfa á barnið sitt veikt og geta ekki bara ælt fyrir það svo það þurfi ekki að gera þetta sjálft. Nóttin fór svo í að vakna upp og athuga hvort ekki væri allt í lagi með litlu stelpuna mína. Við vorum svo bara heima í gær, þriðjudaginn, og dúlluðum okkur í feluleik og dundi. Ég var nokkuð viss um að þessi dagur mundi vera laus við einhver vandamál eða leiðinlegar upp á komur. Hefði betur sleppt því að ætla að taka úr þvottavélinni því þegar það átti að gerast var komin villumelding á hana um að eitthvað væri aftur að henni. Redda því bara á morgun hugsaði ég, verður bara eins og síðast, ekkert alvarlegt. Annað kom í ljós þegar ég hringdi í viðgerðarmanninn, mótorinn hruninn trúlega viðgerð upp á rúmlega 30. þúsund. Jæja, hvað getur maður annað gert en að brosa og segja komdu bara karlin og ég borga með bros á vör, geri allt fyrir að hafa þvottavélina í lagi, enda þvotturinn farinn hlaðast upp eftir tíðar bilanir síðustu daga.
Í kvöld fer ég bara fram á að píparnir komi aftur og klári að tengja vaskinn minn, setja upp ofninn í baðherberginu og tengja þvottavélina fyrir mig. Ofan á það vona ég innlega að fílsarinn komi og klári að flísa í eldhúsinu. Veit að bróðir minn svíkur mig varla með að tengja eldavélina, þannig að við mæðgur getum kannski spælt okkur egg, förum ekki fram á að geta gert meira en það.
Góða við svona hrakföll er að maður getur nú ekki annað gert en að hafa smá gaman af þeim eftir á og mikið þakka ég fyrir skap mitt þegar þetta þessi atburðir gerast. Ég einhvern hef tekið þeim bara öllum með jafnaðargeði og ekki haft fyrir því að æsa mig yfir hlutunum. Enda lítið á því að græða.
1 Comments:
Ja hérna. Farðu varlega í að spæla eggin þú gætir brennt þig!
Skrifa ummæli
<< Home